Þegar við viljum skoða framistöðu í skipulagsheild og stuðla að því að hún verði betri getur þarfagreining, eða greining fræðsluþarfa verið góð leið til að greina stöðuna til þess að ákveða hvað sé hægt að gera til að stuðla að bættri framistöðu skipulagsheildarinnar (fyrirtækisins, stofnunarinnar, skólans…)
Fyrr en varir kemur í ljós hugsun þeirra, sem greina og þeirra sem vinna innan skipulagsheildarinnar, hefur úrslitaáhrif á þær ákvarðanir sem teknar verða.
Þetta er greinilegt í mörgum bókum sem taka fyrir hluti eins og stjórnun og breytingastjórnun skipulagsheilda. Bók Peter Senge “The fifth discipline” hafði á sínum tíma heilmikil áhrif á hugsun fólks sem vinnur að þróun skipulagsheilda. Eitt aðalatriðið í bókinni er s.k. “Systems Thinking”. Senge heldur því fram að fólk gleymi oft að hugsa út fyrir það fyrsta sem því dettur í hug og að skoða samhengið: Allt sem gerist gerist ekki í tómarúmi, heldur í ákveðnu kerfislægu samhengi, þar sem eitt hefur áhrif á annað. Og ef við erum að greina námsþarfir og vinna að þróun mannauðs í fyrirtæki eða stofnun, þá sjáum við e.t.v. vandamál á ákveðnum stað í “kerfinu” en áttum okkur ekki á því að það sem er að gerast gerist í stærra samhengi og “orsökin” gæti legið annarstaðar. (Það er mjög gott dæmi um þetta í 3. kafla bókarinnar.) Þess vegna er gagnlegt að nota alls konar skipulögð vinnuferli sem hjálpa okkur að a) koma í veg fyrir að við tökum skyndiákvarðanir (Jump to Conclusions) og b) leiða okkur í gegnum skipulagt hugsanaferli sem hjálpar okkur að sjá fleiri hliðar á myndinni. Senge vitnar í aðferð sem Chris Argyris þróaði og kallaði “Ladder of inference“. Þar er þessi Ladder of Inference dæmi um slíkt tól til að skoða hugsun sína. Sömuleiðis eru módelin sem við skoðum á þessu námskeiði ólíkar aðferðir til að skoða framistöðu fólks frá mismunandi sjónarhorni og þær geta leitt okkur að ákvörðunum um það hvernig við getum hjálpað fólki að þróast í starfi og jafnvel takast á við vanda í framistöðu einstaklinga og skipulagsheilda.
Ofangrein “hugsanatól” minna okkur á að þótt hugur okkar sé ótrúlega frábært fyrirbæri, þá er hann ekki óskeikull. Sálfræðirannsóknir undanfarinna áratuga hafa leitt ýmislegt í ljós sem getur hjálpað okkur að nota hugann betur, og í samhengi sem viðfangsefni þessa námskeiðs er, á það e.t.v. sérstaklega vel við að skoða það.
Daniel Kahneman hefur um langt skeið rannsakað hvernig fólk tekur ákvarðanir og fellir dóma. Í nýlegri bók “Thinking fast and slow” dregur hann saman sínar eigin rannsóknir og annarra um þemað þar sem hann notar kenningu sem virðist nokkuð almennt viðurkennd um að hugsun okkar hafi tvö kerfi, eitt sem virkar mjög hratt og “stekkur á ályktanir” og annað sem virkar hægt og af því að heilinn er latur, þá forðumst við að nota það ef við getum! Það er vel þess virði að lesa þessa bók, eða amk. hlusta á viðtöl eða erindi Kahneman.
Á sömu nótum skrifar Jeff Hawkins í bók sinni On Intelligence. Þar talar hann um svipaða hluti á taugafræðilegu plani. Hann er í bókinni að stíga frumskref í að móta “heildarkenningu um það hvernig heilinn virkar”. Í grundvallar atriðum heldur hann því fram að heilinn sé þannig víraður að hann giski á – eða reyni að segja fyrir um (predict) – hvað nýtt áreyti sé. Þetta sýnist mér vera á sömu nótum og það sem Kahnemann segir um svo kallaða hraða hugsun.
Þetta þema er greinilega það vinsælt um þessar mundir að TED er meira að segja með sérstakan “Playlist” um það!