Rýnihópar – Harpa

Wikis > Verkfærakistan > Rýnihópar - Harpa

Rýnihópar

Rýnihópur (e. focus groups) er samsettur hópur einstaklinga sem á skoðanaskipti um fyrirfram ákveðin málefni. Þessi aðferð er sem dæmi notuð í markaðsrannsóknum, til að meta fræðsluþarfir innan fyrirtækis, leita úrbóta eða kanna skoðanir ákveðinna hópa. Miðað er við að u.þ.b. 6-10 manns séu í hverjum hóp. Nógu lítill hópur svo flestir taki virkan þátt en nógu stór til að fram komi ólíkar skoðanir og mismunandi sjónarhorn.

Rýnihópar eða hópviðtöl, eru eigindleg rannsóknaaðferð sem er notuð til að öðlast betri skilning á viðhorfum og reynslu tiltekins hóps fólks gagnvart ákveðnu viðfangsefni rannsóknar. Tilgangurinn er að skoða mismunandi viðhorf og reynslu. Þetta er leið til að hlusta á fólk ræða saman og læra af því. Fjöldi rýnihópa í hverju rannsóknaverkefni er oft á bilinu 3-6. Það getur þó verið breytilegt og ræðst þá gjarnan af tíma og kostnaði við hverja rannsókn fyrir sig. Með því að skoða viðhorf fólks í fleiri hópum er hægt að ná fram betri heildarsýn af umræðunni.

Hvernig er framkvæmdin?

Í framkvæmd eru lagðir fram ákveðnir spurninga- eða umræðulistar, skipulögð hópavinna eða hópverkefni. Umræðan er oft tekin upp á mynd- eða hljóðband, fyrir rannsakanda til að greina upplýsingar og gögn.

Markmiðið er ekki að hópurinn komist að sameiginlegri niðurstöðu heldur að fram komi ólíkar skoðanir og gildi varðandi umfjöllunarefnið. Niðurstöður rýnihópa veita upplýsingar frá heildinni, en ekki skoðanir einstaklinga líkt og kannanir.

 

Helstu kostir rýnihópa

Rýnihópar veita dýpri innsýn og umræður um umfjöllunarefnið. Þetta er sveigjanleg aðferð sem byggir á samskiptum fólks þar sem misunandi skoðanir koma fram. Hægt er að fá miklar upplýsingar frá mörgum á skömmum tíma. Rýnihópar henta sérlega vel þegar ekki er mikið þekking til staðar á viðfangsefninu eða ef skoða á huglæg atriði eins og ímynd eða mat á þjónustu.

 

Helstu gallar rýnihópa

Ókostir við rýnihópa eru að samræður geta orðið einsleitar og ruglingslegar. Jafnvel geta umræður í rýnihópum leitt til hóphugunar (e. group thinking) þ.e. þegar aðili innan hópsins (einn eða fleiri) sem tjá sig mest eru farnir að stjórna hinum og umræðunum. Góður stjórnandi rýnihóps á þó að geta komið í veg að slíkt gerist. Þegar fjalla á um persónuleg málefni er ekki gott að nota rýnihópa.

 

Val á rýnihópum

Rannsakandi þarf að skilgreina tilgang rannsóknarinnar og jafnframt hvaða rannsóknaspurningu/um hann ætlar að svara. Í ljósi þess þarf að skoða hvaða aðferð komi til greina. Ef ætlunin er að fá margvísleg viðhorf, reynslu, tilfinningar og gildismat nokkurra þátttakenda á sama tíma gagnvart ákveðnu viðfangsefni og skoða hvernig þessi afstaða endurspeglast í umræðu hópsins þá eru rýnihópar tilvalin leið til þess. Tilgangur rannsóknarinnar sem og spurningarnar koma til með að vera hjálpartæki við val á þátttakendum, hvað spurt er um í viðtalinu og greiningu gagna.

Stewart og Shamdasani (1997) flokka rýnihópa eftir því í hvaða tilgangi þeir eru notaðir: kanna (e. exploratory), túlka (e. interpretation) og fá staðfestingu (e. confirmatory). Ef þróa á eða leggja mat á þjónustu eru rýnihópar gjarnan notaðir, ef t.d á að leggja upp með nýjar aðferðir innan fræðslustofnana er sá möguleiki fyrir hendi að nota sér það starfsfólk sem nú þegar vinnur hjá viðkomandi stofnun í rýnihópinn, þar sem þeir geta gefið mikilvægar upplýsingar um þarfir þeirra sem til stofnunarinnar leita.

 

Heimildir:

Krueger, R.A. (1994). Focus groups. A practical guide for applied research (2. Útg.). London: Sage.

Madriz, E. (2000). Focus groups in feminist reserch. London: Sage.

Stewart, D.W. og Shamdasani, P.N. (1997). Focus group reserch. London: Sage.

 

Gagnlegar greinar um rýnihópa:

Needs Assessment Focus Group Toolkit:

http://www.socialent.com/wp-content/uploads/2009/05/needs-assessment-focus-group-toolkit.pdf

Focus Group Tool Kit:

http://www.rowan.edu/colleges/chss/facultystaff/focusgrouptoolkit.pdf