Spurningalistar – Hildur, Karl, Glúmur

Wikis > Verkfærakistan > Spurningalistar - Hildur, Karl, Glúmur

Spurningalistar

Almennt um spurningalista

Hönnun, skipulag og uppsetning á spurningalista getur farið eftir því hvernig könnun er um að ræða – símakönnun, póstkönnun, eða netkönnun.  Þetta kallar á ólíkar aðferðir í hönnun, skipulagi, uppsetningu og framkvæmd. Ólíkar aðferðir hafa ekki síst að gera með hversu nákvæmar leiðbeiningar þarf að gefa þeim sem fær könnunina í hendur (Grétar Þór Eyþórsson, 2013). Spurningar þurfa að vera auðskildar og ekki er æskilegt að vera með of mikið af spurningum.

Það gefur auga leið að spurningar sem eru gerðar sem net- eða póstkönnun geta verið fleiri en spurningar í símakönnun. Meiri kostnaður getur fylgt ef símakannanir eru langar. Í símakönnun má þó mögulega komast upp með að hafa spurningar ekki eins skýrar og í netkönnun þar sem svarandi hefur þá möguleika á að biðja um nánari útskýringar og eins hefur spyrjandi sama möguleika ef svör eru óljós.

Í spurningakönnunum eru lokaðar spurningar algengasti kosturinn þar sem þær eru mun fljótlegri og ódýrari í úrvinnslu.  Oft er um nafnleynd að ræða sem eykur líkur á betri svörun (Drever og Munn, 1990).

Við hvaða aðstæður henta spurningalistar?

Spurningalistar henta vel þegar safna þarf upplýsingum um þekkingu, tilfinningar, viðhorf, skoðanir eða atferli og þegar þörf er fyrir mælanlegar upplýsingar.  Stærsti kostur við notkun spurningalista er að hægt er að ná til stærri fjölda svarenda á tiltölulega stuttum tíma.  Vefkönnun er skilvirkasta og ódýrasta tegund spurningakannana.

Með spurningalistum er einnig möguleiki á að ná til þátttakenda á fjarlægari stöðum. Ef ætlunin er að ná ákveðnum hóp, er hentugt að nota tölvupóst.  Spurningalistar henta vel ef fjöldi þátttakenda er mikill og þegar tími er knappur þ.e þegar meta þarf þarfir á skömmum tíma.

Helstu gallar spurningalista

Ókostir við notkun spurningalista er m.a að ef svarhlutfall er lágt og þá getur kostnaður við gerð þeirra verið hár. Tíminn sem fer í að útbúa góðar spurningar er oft vanmetinn og því kostnaður kannski meiri en talið er.  Spurningar endurspegla það sem spurt er um en ekki endilega skoðun þátttakenda. Þær lýsa frekar einhverju ástandi heldur en útskýra af hverju það er þannig í raun og veru. Niðurstöður geta því verið yfirborðskenndar(Drever og Munn, 1990).  Ef svör við spurningum eru mjög mörg eða óljós, þá kann að vera betra að spyrja opinna spurninga.  Að spyrja opinna spurninga í spurningakönnun hefur þó sýnt sig að fæla fólk frá því að svara.  Ef dýpka þarf skilning á svörum, þá loka spurningakannanir fyrir þann möguleika að spyrjandinn geti spurt nánar út í svarið.

Undirbúningur fyrir gerð spurningalista

Hér þarf að vera búið að vinna góða forvinnu til að spurningarnar séu efnislega réttar og mæli það sem þeim er ætlað að mæla.  Það skiptir máli að öll fyrirmæli séu skýr og afdráttarlaus og á það sérstaklega við í póst- og netkönnunum þegar svarandi hefur ekki möguleika á að biðja um nánari skýringar á spurningum (Grétar Þór Eyþórsson, 2013).  Hinn gullna almenna regla er að nota einföld orð í spurningum og tryggja almennt að að spurningar séu skýrar og ótvíræðar (Grétar Þór Eyþórsson, 2013).

Áður en spurningar eru lagðar fyrir, þarf að vera búið að greina hópinn vel. Hver er aldursamsetning og bakgrunnur þátttakenda? Hversu góðan aðgang hafa þeir að tölvu og hversu mikil er tölvunotkun? Mögulega þarf að blanda nokkrum aðferðum saman. Ef tungumálavandamál er til staðar er ekki æskilegt að vera með símakönnun eða netkönnun.

Margar gerðir eru til af spurningarlistum s.s já og nei spurningar, fjölvalsspurningar og spurningar sem krefjast skriflegra svara en gefa meiri möguleika á opnum svörum. Bæði er hægt að blanda saman opnum og lokuðum spurningum eða vera með eina ákveðna tegund.Hafa verður þó í huga að sé gefin kostur á því að svara skriflega, er mun tímafrekara að fara yfir niðurstöður.

Góð ráð við gerð spurningalista

Að spara pláss er ekki hentugt á spurningalista og gott er að aðgreina vel einstakar spurningar og spurningakafla með greinilegum kaflaskilum og fyrirsögnum.  Annað sem ber að hafa í huga við fyrirlagningu spurningalista er hvenær leggja á þær fyrir. Sé notast við tölvupóst eða netkönnun getur svarandi sjálfur ákveðið hvenær honum hentar að svara listanum en ef spurningar eru lagðar fyrir viðkomandi á staðnum eða hringtí hann,  getur málið vandast.

Hvað ber að varast við gerð spurningalista

Við gerð spurningalista er ýmislegt sem þarf að huga að og ýmsir pyttir til að forðast.  Orða þarf spurningar skýrt því óskýr orð og orðalag geta valdið því að spurningin annað hvort skilst ekki eða þá að hægt er að skilja hana á marga mismunandi vegu. Aldrei skal spyrja um upplýsingar á þann hátt að spurningin samanstandi af stöku orði með spurningamerki fyrir aftan heldur skal ávalt skal orða spurninguna sem heila spurningu. Varast þarf að spyrja tveggja spurninga í einni og sömu spurningunni eða hafa tvöfalda neitun í henni.  Jafnframt skal forðast að nota skammstafanir í spurningunum sjálfum eða meðfylgjandi fyrirmælum því þær geta auðveldlega misskilist.   Einnig er bent á að séu valkostirnir já/nei eingöngu notaðir, hafi rannsóknir sýnt að fólk hefur almennt tilhneigingu til að svara játandi frekar en neitandi.

Hvað ber að varast við framkvæmd verks

Þegar leggja á fyrir spurningalista fyrir svaranda, er mikilvægt að skoða á hvaða tíma er hentugt að spyrja. Ef notast er við tölvupóst eða netkönnun getur sá sem svarað stjórnað því hvenær hann svarar spurningunum en séu spurningar lagðir fyrir á staðnum eða hringt í hann getur málið orðið snúnara og eftirfarandi  dæmi skýra hvað við er átt.

Ef hringt er í þátttakendur verður að hafa í huga að kostnaður gæti orðið meiri en gert var ráð fyrir í upphafi vegna mögulegrar kvöld- og helgarvinnu. Oft er erfitt að ná í fólk á vinnutíma þess, ekki er vel séð að eyða vinnutímanum í að svara könnun og sumt fólk er ekki með síma á sér. Sé hringt í fólk utan vinnutíma, þarf að huga að hvað sé of seint, hvort forðast þurfi að hringja í fólk á matartíma o.s.frv.

Sama gildir um ef farið er á staðinn og spurningar lagðar fyrir fólk í vinnutíma þess. Oft er auðsótt að fá að koma inn á starfmannafundi og leggja fyrir könnun en á hvaða tíma eru fundirnir. Eru þeir haldnir í upphafi dags áður en þátttakendur eru tilbúnir til velta fyrir sér spurningum jafnvel þó þær séu auðskildar? Er vikan að verða búin,  helgarfrí framundan og þátttakendur því þreyttari en ella? Möguleiki er þá að t.d fyrstu spurningunum sé svarað gaumgæfilega en seinni hlutinn sé ómarktækar og getur það skekkt niðurstöður.

Úrvinnsla og greining gagna – Áreiðanleiki mælitækis

Eru svör rétt?  Gefa þau rétta mynd af því sem spurt er um?  Eru þátttakendur að gefa heiðarleg svör?  Eiga þeir auðveldara með að gefa mynd af því ástandi sem óskað er eftir heldur en því ástandi sem er?  Er spurningarnar að mæla það sem þeim er ætlað að mæla?

Niðurstöður

Sem fyrr segir henta spurningalistar vel þegar spyrjandi þarfnast mælanlegra upplýsinga, þegar þarf að ná til mikils fjölda í einu eða þegar svarendur eru landfræðilega dreifðir.

Heimildir

Eyþórsson, G. Þ. (2013). Spurningakannanir: Um orð og orðanotkun, uppbyggingu og framkvæmd. In S. Halldórsdóttir (Ed.), Handbók í aðferðafræði rannsókna (pp. 453-472). Akureyri: Háskólinn á Akureyri.

Munn, P., & Drever, E. (1990). Using questionnaires in small-scale research : a teacher’s guide. Edinburgh Scottish Council for Research in Education.