SVÓT greining (Árni og Kristín)

Wikis > Verkfærakistan > SVÓT greining (Árni og Kristín)


Hvað er SVÓT greining?

SVÓT greining (SWOT analysis) er greinandi aðferð sem er notuð til að finna og flokka innri og ytri áhrifaþætti á ákveðnum vettvangi. Styrkleikar og veikleikar tilheyra innri þáttum, en ógnanir og tækifæri tilheyra ytri þáttum. Vettvangurinn getur verið fyrirtæki, stofnun, eða svæði svo sem hérað eða borg.

SVÓT greining getur verið mikilvæg við að greina t.d. markaðsstöðu fyrirtækis og gefur góðar upplýsingar við breytingastjórnun og skipulagningu. Varast ætti að líta á einungis niðurstöðuna sem SVÓT greiningin gefur, heldur líta á hana sem hluta af þróunarferli.

Í SVÓT greiningunni er safnað upplýsingum um innri og ytri þætti sem hafa, eða hafa ekki, áhrif á þróun fyrirtækis.  Við greininguna verður til listi yfir styrkleika og veikleika sem koma fram við greiningu og einnig listi yfir ógnanir og tækifæri sem verður til við greiningu á umhverfinu.

Hverjir taka þátt

Mælt er með því að greiningunni sé stjórnað af aðila sem hefur reynslu af SVÓT. Hverjir taka þátt fer eftir eðli þess sem verið er að rannsaka. Hér gætu stjórnendur, starfsfólk, hluthafar eða viðskiptavinir komið að borðinu.

Hvernig gengur SVÓT greining fyrir sig?

Að gera töflu með tækifærum og ógnunum hvetur til greiningar á því hvaða áhrif ákveðnir þættir geta haft á stofnunina. Hægt er að nota punkta til að gefa þáttum vægi eftir mikilvægi. Þeir þættir sem skora hæst ætti að skoða mest og taka með í reikninginn þegar áætlanir eru gerðar.

Á sama hátt ætti að vinna með styrkleikana og veikleikana. Gefa þeim vægi, t.d. með því að greina þá eftir mikilvægi (hátt, meðal, lágt) og í meiriháttar vandamál, minniháttar vandamál eða eitthvað sem skiptir ekki máli.

Þessar niðurstöður er hægt að kynna í töflu yfir ,,frammistöðu-mikilvægi” þar sem áherslu er beint að þáttum sem eru bæði mikilvægir og sem sýna lélega frammistöðu fyrirtækisins. Áætlanir eiga að beinast að þessum þáttum.

Í SVÓT greiningunni er gott að hafa eftirfarandi spurningar sem útgangspunkta:

Styrkleikar (horft innávið)

 • Hvaða góða eiginleika höfum við?
 • Hvað gerum við vel?
 • Hvaða úrræðum höfum við aðgang að?
 • Hvað sjá aðrir sem kosti okkar?

Veltu þessu fyrir þér frá þínu eiginn sjónarhorni og frá sjónarhorni fólksins í kringum þig. Vertu sanngjörn og raunsæ. Það gæti hjálpað að skrifa lista yfir eiginleika fyritækisins fyrst.

Þegar litið er á styrkleika er gott að hugsa um þá í tenglsum við samkeppnisaðila. Ef allir samkeppnisaðilar bjóða gæðavöru þá er gæðavaran þín ekki styrkleiki hjá þér heldur nauðsyn.

Veikleikar (horft innávið)

 • Hvað getum við bætt?
 • Hvað gerum við illa?
 • Hvað þurfum við að forðast?

Hér þarf að velta fyrir sig innri og ytri sjónarhornum: Sjá aðrir veikleika sem við greinum ekki? Hér er best að vera raunsær og gera sér grein fyrir óþægilegum staðreyndum eins fljótt og hægt er.

Tækifæri (horft út)

 • Hvar eru góð tækifæri?
 • Hvaða góðu stefnur verðurðu vör við?

Góð tækifæri geta orðið til vegna:

 • Tæknibreytinga
 • Breytinga í áherlsum og stefnum ríkisstjórna
 • Samfélagslegra breytingar s.s. í mannfjölda, byggð, lífsstíll, o.fl.
 • Viðburðir og atburðir

Hagnýt leið til að skoða tækifæri er að skoða styrkleika og spyrja sig hvort þeir geti skapað tækifæri. Á sama hátt má skoða veikleika og spyrja sig hvort tækifæri verði til við það að losna við veikleikann.

Ógnanir (horft út)

 • Hvaða hindranir eru í veginum?
 • Hvað er samkeppnisaðilinn að gera?
 • Ógnar ný tækni stöðu okkar
 • Valda veikleikar alvarlegum vandamálum?

Að fara í gegnum svona greiningu varpar oft ljósi á hvað er nauðsynlegt að gera og gefur betri sýn á vandamál.

Hvað þarf til verksins

Eins og oft er við greiningarvinnu þarf tíma starfsfólks og vinnu, og einnig fjármagn.

SVÓT greining byggir á staðreyndum sem getur reynst tímafrekt og dýrt að safna og því þurfa þátttakendur að hafa góða þekkingu og yfirsýn á viðfangsefninu. ásamt færni til greiningar.

Afrakstur

Aðalafrakstur eða útkoma úr SVÓT greiningu er tafla sem sýnir mikilvægustu styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri fyrir það svið sem verið er að greina. Tilgangurinn með töflunni er að gefa yfirlit yfir aðalmálin sem þarf að taka með í reikninginn þegar verið er að gera áætlanir fyrir fyrirtæki eða stofnun.

—————–

Hér er kynning frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem skýrir SVÓT greiningu:

SVÓT greining frá – Nýsköpunarmiðstöð Íslands

 

Heimildir

FOR-LEARN. SWOT (Strengths Weaknesses Opportunities and Threats) Analysis. 2005-7 European Commission. Sótt 15. nóvember 2013 frá:
http://forlearn.jrc.ec.europa.eu/guide/4_methodology/meth_swot-analysis.htm
 
Cook, Sarah. (2005).  LEARNING NEEDS ANALYSIS: PART 2: Linking Learning Needs Analysis to business needs. Training Journal, Feb 2005, ProQuest Central, 50-54.
 
Queensland Government. 2013. Conducting a SWOT analysis. Sótt 15. nóvember 2013 frá: http://www.business.qld.gov.au/business/starting/market-customer-research/swot-analysis/conducting-swot-analysis
 

Nýsköpunarmiðstöð Íslands. SVOT- greining. Örnámskeið um svót-greiningu. Sótt 15. nóvember 2013 á: http://vimeo.com/31197663

Tags:

Sub Wikis